Birgir var í viðtali í Reykjavík síðdegis á Bylgjunni í dag þar sem hann ræddi um starfsemi félagsins og horfur þess næstu misserin. Í viðtalinu var hann sérstaklega spurður út í kjaftasögur um starfsemi félagsins, þar á meðal eina sem á að hafa gengið um á meðal flugfólks hér á landu um að félagið sé skikkað til að vera ávallt með eina flugvél á jörðu niðri sem tryggingu.
„Já, þetta er nú held ég með dannaðri kjaftasögum sem gengur um þetta góða fyrirtæki,“ sagði Birgir og minnti á að margir teldu sig vera sérfræðinga um rekstur flugfélaga.
„Það er auðvitað frábærlega gaman að geta sagt frá því að þetta er auðvitað á góðri íslensku algjört bull,“ sagði Birgir og benti áhugasömum um flugflota Play að fylgjast með vefsíðu Keflavíkurflugvallar eða vefsíðunni Flight Radar þar sem fylgjast má með flugi í rauntíma.
„Við erum oft með fimm vélar á lofti á morgnana. Það er bara af því að áætlunin spilast þannig út og svo erum við með sex vélar í eftirmiðdaginn. Allur okkar floti er nýttur alveg í botn,“ sagði Birgir.
Hafið þið aldrei verið skikkaðir til þess að hafa eina vél á jörðu niðri?
„Nei, aldrei nokkurn tímann,“ sagði Birgir og minnti á að Play væri skráð á markað með þeirri upplýsingagjöf sem því fylgir.
„Við komum fjórum sinnum á ári fram fyrir alþjóð í raun og veru og alla fjárfesta. Leggjum fram endurskoðaðan reikning og kynnum allt fyrirtæki alveg niður í þaula. Þar með talið fjárhagsstöðuna, skuldastöðuna,“ sagði Birgir og vísaði í síðasta ársfjórðungsuppgjör þar sem fram hafi komið að félagið væri skuldlaust, fyrir utan flugvélaleigu. Play, líkt og mörg önnur flugfélög, leigir flugvélar sínar frá sérhæfðum flugvélaleigufyrirtækjum.
„Þannig að félagið er bara gríðarlega fjárhagslega sterkt eins og það hefur alltaf verið en þessar kjaftasögur eru alveg frábærar,“ sagði Birgir.

Fyrr í viðtalinu hafði Birgir sagt að kjaftasagan um að ein flugvél ætti alltaf að vera á jörðu niðri væri ekki svæsnasta kjaftasagan sem hann hefði heyrt um félagið. Var hann þá spurður að því hver væri sú svæsnasta.
„Ég heyri um hver einustu mánaðarmót að við séum ekki að ná að borga laun. Ég hugsa að ef það væri nú staðreyndin þá væru nú einhverjir starfsmenn að leita til fjölmiðla eða einhvers. Það hefur nú ekki borið á því enda er það algjör þvættingur,“ sagði Birgir.
Þá sagðist hann hafa heyrt um daginn að 150 manns hefðu sótt um vinnu hjá Play þegar staðreyndin væri sú að það voru þrjú þúsund manns sem sóttu um störf hjá Play.
„Þetta gengur bara áfram og áfram sem er bara skemmtilegt. Við bara hlæjum að þessu,“ sagði Birgir.